Add parallel Print Page Options

29 Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa,

ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli.

Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum.

Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni.

Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum.

Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn.

Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann.

Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla,

gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans.

10 Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum.

11 En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samfundatjaldsins.

12 Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið.

13 Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu.

14 En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn.

15 Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins.

16 Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið.

17 En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innýfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið.

18 Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn Drottni til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn Drottni til handa.

19 Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins.

20 En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið.

21 Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum.

22 Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið _ því að þetta er vígsluhrútur _,

23 einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir Drottni.

24 Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni.

25 Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir Drottni. Það er eldfórn Drottni til handa.

26 Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni. Hún skal koma í þinn hlut.

27 Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans.

28 Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til Drottins.

29 Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim.

30 Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum.

31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað,

32 og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins.

33 Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað.

34 En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað.

35 Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra,

36 og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það.

37 Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður.

38 Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega.

39 Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur.

40 Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni.

41 Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir Drottin.

42 Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn Drottins. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig,

43 og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð.

44 Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti.

45 Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Guð.

46 Og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra. Ég er Drottinn, Guð þeirra.