Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 108-110

108 Ljóð. Davíðssálmur.

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!

Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,

til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society